Kristján Friðriksson

Kristján Friðriksson

Iðnrekandi
1912-1980

Heim

Farsældarríkið og manngildisstefnan

Hagkeðjan í hnotskurn

Lífshlaup og skoðanir Kristjáns í Últímu í hnotskurn

Verðlaunasjóður iðnaðarins

Æviágrip

Upptaka frá málþingi

 

Verðlaunasjóður iðnaðarins, stofnaður af Kristjáni Friðrikssyni, Últímu

Samtök iðnaðarins sjá um rekstur sjóðsins en í stjórn hans sitja 5 manns.

Sjóðurinn var stofnaður árið 1976 og tilgangur hans er að örva til dáða á sviði iðnaðar og jafnframt að vekja athygli á einstaklingum og fyrirtækjum sem vinna að iðnaði, hönnun og framleiðslu. Stofnframlag sjóðsins er helgað minningu þeirra fjölmörgu hugvits- og hagleiksmanna sem fyrr og síðar hafa starfað á Íslandi og misjafnar umbunar notið fyrir verk sín”. Kristján taldi að styðja þyrfti betur við smáiðnaðinn í landinu þannig að hann gæti smám saman staðið á eigin fótum og orðið einn grunnþátturinn í íslensku atvinnulífi.

Val á verðlaunahöfum í ár hefði eflaust fallið Kristjáni vel í geð þar sem um er að ræða hugsjónafólk sem hefur með elju sinni og áhuga hafið framleiðslu á vörum úr alíslensku hráefni. Báðir verðlaunahafar byggja vörur sínar á gömlum hefðum heimilisiðnaðar og matarmenningar en horfa einnig til nýrra notkunarmöguleika, rannsókna og útflutnings.

Verðlaunahafar 2009.

Íslensk hollusta er lítið einkarekið fjölskyldufyrirtæki sem hóf rekstur árið 2005. Eigandi þess er Eyjólfur Friðgeirsson líffræðingu. Fyrirtækið framleiðir m.a. vörur úr þara, fjallagrösum, íslenskum jurtum,berjum, salti og vikri. Vörurnar eru neytendavænar og í háum gæðaflokki. Mikill og stóraukinn áhugi er á framleiðslu fyrirtækisins ekki síst í heilsugeiranum og meðal hótelrekenda og ferðamanna. Hugmyndafræði fyrirtækisins er skýr: Að nýta þær auðlindir sem finnast í íslenskri náttúru til manneldis og heilsubótar. Eyjólfur bendir m.a. á að við strendur Íslands séu milljónir tonna þörunga, nær ónýttir. Eins og margir vita eru þörungar taldir vera einhver hollasta og bætiefnaríkasta fæða sem völ er á og margir telja þörunga vera mikilvæga fæðutegund framtíðarinnar.

Heimasíða: islenskhollusta.is

Hönnunarfyrirtækið Farmers Market var stofnað haustið 2005 af Bergþóru Guðnadóttur hönnuði og Jóel Pálssyni tónlistarmanni. Markmið þeirra er að nýta náttúruleg hráefni með sérstaka áherslu á íslensku ullina til að framleiða vörulínu af fatnaði og fylgihlutum sem hefur sterka skírskotun til íslenskrar arfleifðar og menningar. Bergþóra hannar allar vörur fyrirtækisins og hefur með listræni og smekkvísi meðal annars endurhannað gömlu íslensku lopapeysuna og gert hana nútímalega, mjúka og klæðilega. Framleiðslan er einkar vönduð, stíllinn fágaður og glæsilegur. Vörur Farmers Market hafa vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis og eru nú í sölu í hönnunar- og tískuverslunum í 12 löndum, m.a. í Tokyo, Berlín, Madríd, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, New York og París. Á síðasta ári voru notuð um 10 tonn af íslenskri ull í vörulínu Farmers Market.

Heimasíða: farmersmarket.is

Kristjáni fannst mikilvægi íslensks iðnaðar og uppbygging hans gleymast á uppgangstímum sjávarútvegsins. Hann þreyttist ekki á að tala um mikilvægi þess að viðhalda íslenskum iðnaði, þróa hann með langtímasjónarmið fyrir augum og gera samkeppnishæfan við innfluttar vörur. Hann benti á að íslendingar mættu ekki setja öll eggin í sömu körfuna, fiskurinn væri jú mikilvægur en ef hann brysti hvar stæðum við þá? Því væri nauðsynlegt að byggja upp smáiðnað hringinn í kring um landið. Framleiðslan þyrfti að vera fjölbreytt og byggja bæði á fornum hefðum, sérkennum og sérþekkingu en einnig nútímalegri tækni og framsýni. Þannig yrði stuðlað að jafnri og öruggri búsetu- og atvinnuuppbyggingu, sjálfbærni þjóðarinnar og verkmenningu. Hann taldi hagleik og verkfærni einn helsta þjóðarauð Íslendinga. Kristján lagði ríka áherslu á að Íslendingar nýttu náttúruauðlindirnar skynsamlega og að þjóðin sem heild mætti njóta arðseminnar en ekki einungis fáir útvaldir peningamenn. Hann taldi hagstæðast að sem flestir framleiðsluþættir væru í höndum smárra einkaaðila; að sem flestir væru ábyrgir. Það myndi nýtast best til að hlúa að einstaklingnum, örva nýsköpun og einkaframtak. Auk þess myndi slík stefna vera til þess fallin að skapa jafnvægi í þjóðarbúskapnum, draga úr áföllum vegna hruns fiskistofna og áhrifa af hugsanlegum kreppum í hagkerfinu.

Kristján var mikill náttúru- og listunnandi. Frá unga aldri teiknaði hann, málaði og skrifaði. Hann stofnaði Útvarpstíðindi, skrifaði barnabækur og gaf m.a. út bók um Íslenska myndlist. Kristján var vel heima í flóru landsins og hafði mikinn áhuga á að nýta jurtir til lækninga, lyfjagerðar og manneldis. Í bók Kristjáns Smávinir fagrir, sem er ,,dulbúin´´ kennslubók í grasafræði fyrir unglinga, má finna margskonar fróðleik um jurtir og nýtingu þeirra. Að Efri- Hólum voru börnin látin tína vallhumal og sortulyng í græðismyrsl sem móðir hans ljósmóðirin bjó til og útdeildi til sængurkvenna. Blóðberg og rjúpnalauf voru notuð í te og fjallagrösin í flatbrauð og slátur. Berin voru að sjálfsögðu einnig nýtt í saft og sultur.

Tekið saman af Heiðrúnu Kristjánsdóttur í september 2009.


Að frumkvæði Friðriks Steins Kristjánssonar er þessi síða unnin af Sigríði B. Einarsdóttur og Guðrúnu Kristjánsdóttur árið 2009