Kristján Friðriksson

Kristján Friðriksson

Iðnrekandi
1912-1980

Heim

Farsældarríkið og manngildisstefnan

Hagkeðjan í hnotskurn

Lífshlaup og skoðanir Kristjáns í Últímu í hnotskurn

Verðlaunasjóður iðnaðarins

Æviágrip

Upptaka frá málþingi

 

Æviágrip

Kristján Friðriksson iðnrekandi var fæddur árið 1912 að Efri- Hólum í Núpasveit, N-Þingeyjarsýslu. Kristján var menntaður kennari frá Kennaraskóla Íslands og starfaði við kennslu í nokkur ár en snéri sér síðan að öðrum verkefnum. Hann var framsýnn athafna- og hugsjónamaður sem lét sig hag og farsæld þjóðarinnar öllu varða.

Kristán stofnaði fyrirtækið Últímu árið 1941 og rak það til dauðadags. Últíma var í fyrstu verslun og saumastofa með klæðskerasaumaðan og innfluttan herrafatnað. Kristján hafði lengi haft áhuga á að vinna úr íslensku ullinni og sá í henni sóknarfæri fyrir íslenskan iðnað. Í upphafi sjöunda áratugarins hóf hann því rekstur vefnaðarverksmiðju þar sem framleidd voru áklæði, gluggatjöld og gólfteppi mestmegnis úr íslenskri ull. Áhugann má eflaust rekja til æskuheimilis hans þar sem mikið var lagt upp úr heimilisiðnaði og þá sérstaklega ullarvinnslu. Á heimilinu voru rokkar, spunavél, vefstóll, saumavél og prjónavél. Móðir hans saumaði öll föt og rúmfatnað heimilisfólksins úr efnum sem faðir hans óf. Íslenska ullin var því Kristjáni nákomin, hann þekkti vel verðleika hennar og sérkenni.

Útflutningur iðnaðarvara var Kristjáni einnig mjög hugleikinn. Hann taldi nauðsynlegt að þróa og hlúa að iðnaði hringinn í kring um landið og gera hann samkeppnishæfan við erlendar vörur.Taldi hann að framleiðslan þyrfti að vera fjölbreytt, byggja bæði á fornum hefðum og sérkennum en einnig að vera nútímaleg og tæknileg. Þannig yrði stuðlað að jafnri og öruggri búsetu og fjölbreytni í atvinnulífi þjóðarinnar. Hann áleit hugvit og verkmenningu einn helsta þjóðarauð Íslendinga.

Árið 1963 tóku nokkrir stórhuga íslenskir iðnrekendur sig saman og opnuðu verslun í New York sem hét Icelandic Arts and Crafts. Tilgangurinn var að koma íslenskum iðnvarningi á Bandaríkjamarkað. Kristján flutti með fjölskylduna til New York, kom versluninni á laggirnar og rak hana fyrsta árið.

Verðlaunasjóð iðnaðarins stofnsetti Kristján árið 1978. Tilgangurinn með sjóðnum er að örva til dáða á sviði iðnaðar og vekja athygli á einstaklingum og fyrirtækjum, sem skara fram úr á sviði hugvits og hönnunar.

Vikuritið Útvarpstíðindi stofnaði Kristján árið 1938 og gaf það út um árabil. Hann skrifaði og gaf út barnabækurnar Prinsessan í hörpunni (1940) sem byggð er á atburðum úr Völsungasögu og Ragnarssögu Loðbrókar og Smávinir fagrir (1942), sem er unglingasaga og grasafræði. Hann gaf einnig út Vídalínspostillu (Jónsbók), með formála eftir séra Pál Þorleifsson og bókina Íslensk myndlist árið 1943 sem þá var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Sjálfur var Kristján góður teiknari og málaði í frístundum. Hann var mikill náttúruunnandi og þekkti flestar jurtir og grös í flóru íslands. Þá voru menntamál honum ofarlega í huga alla ævi.

Um tíma sat Kristján á Alþigni og einnig í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ekkja Kristjáns er Oddný Ólafsdóttir, f. 1920, á Bustafelli í Vopnafirði. Börn þeirra eru: Ásrún, Guðrún, Heiðrún og Sigrún. Fyrri kona Kristjáns er Arnþrúður Karlsdóttir, f. 1911, í Hafrafellstungu, Öxarfirði. Börn þeirra eru: Sigurveig og Karl Friðrik sem er látinn. Friðrik Steinn er sonur Kristjáns og Livar Ingibjargar Ellingsen, f. 1910 í Reykjavík.


Að frumkvæði Friðriks Steins Kristjánssonar er þessi síða unnin af Sigríði B. Einarsdóttur og Guðrúnu Kristjánsdóttur árið 2009